Marta María Arnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að nýtt met sé slegið daglega um þessar mundir. Í gær hafi tæplega 5.500 manns farið í hraðpróf og það sem af er degi hafi tæplega fjögur þúsund mætt.
Opnunartíminn í hraðpróf var lengdur til klukkan sex í dag til að anna eftirspurn.
„Það hefur verið stöðugt streymi í allan dag,“ segir Marta María.
Hún segir allt hafa gengið vel fyrir sig, þó röðin hafi nánast náð hringinn í kringum húsið.
„Það er mjög gaman að heyra viðbrögðin hjá fólki. Við héldum að þegar svona mikið væri um að vera yrðu einhverjir pirraðir og leiðir yfir því að þurfa að bíða. Það voru allir mjög þakklátir og hrósuðu okkur fyrir gott skipulag og hvað þetta gekk hratt fyrir sig.“