Tillagan var kynnt á föstudag fyrir íbúum hverfanna en auk lausagöngugarðsins hefur verið lagt til að setja upp á Klambratúni rósagarð.
Klambratún hefur í áratugi verið vinsælt útivistarsvæði meðal Reykvíkinga. Inni á svæðinu er ýmiss gróður auk stíga og bekkja en þar eru jafnframt leiksvæði fyrir börn, sparkvöllur, körfuboltavöllur og strandblakvöllur.
Klambratún er þá þegar vinsælt útivistarsvæði fyrir hundaeigendur í aðliggjandi hverfum og þar má iðulega sjá hunda á vappi með eigendum sínum alla daga. Vísir greindi frá því fyrr á þessu ári að hundaeigendur hafi aldrei verið fleiri hér á landi en hundaskortur var á Íslandi fyrr á þessu ári vegna eftirspurnar.
Lengi hefur það tíðkast meðal hundaeigenda í nágrenni Klambratúns að hittast alla „rauðmerkta“ daga í dagatalinu á Klambratúni á milli klukkan níu og tíu á morgnanna. Hittast þeir til að sýna sig og sjá aðra, og það sem er kannski mikilvægara, til að hundarnir þeirra fái að sýna sig og sjá aðra. Hefur það tíðkast að þeir safnist saman í skeifunni í norðausturhluta garðsins við horn Lönguhlíðar og Flókagötu.
Hundarnir hafa þó kannski ekki fengið að njóta sín eins vel og þeir gætu. Þeir þurfa nefnilega að vera í bandi á Klambratúni. Lagt er þó til nú að í stað hverfismiðstöðvarinnar, sem er á milli Kjarvalsstaða og skeifunnar, komi afgirtur garður með grasflötum, stígum, bekjum og lítilli tjörn þar sem lausaganga hunda verði leyfð.
Mannvirki og malbikuð bílaplön myndu þá hverfa frá og í staðin yrði garðurinn stækkaður. Þegar stendur til, samkvæmt deiliskipulagi, að hverfismiðstöðin verði látin fara.
Þegar eru nokkur svæði í Reykjavík þar sem lausaganga hunda er leyfð. Þau stærri eru þó öll fyrir austan Elliðaár og því kannski óhentugt fyrir fólk sem býr í vestari byggðum borgarinnar. Þrjú svæði eru þó vestan Elliðaár þar sem hleypa má hundum lausum en þau eru öll fremur lítil. um er að ræða einskonar hundagerði, eitt við umferðarmiðstöð BSÍ í Vatnsmýri, annað á milli Suðurlandsbrautar og Engjavegar í Laugardal, og það þriðja í Breiðholti, milli Arnarbakka og Norðurfells.
Nokkur stærri svæði eru þó austar í borginni. Lausaganga hunda er leyfð á Geirsnefi, á Reynisvatnsheiði, þó ekki á göngu-, reið og akstursvegum, og svo á Geldinganesi. Þau svæði eru þó öll nokkuð stór og kannski hentugri fyrir hunda sem þurfa á mikilli hreyfingu að halda.