Einhverjir hafa haft samband við Orkuveitu Reykjavíkur vegna símtala sem þeir hafa fengið þar sem þeir eru sakaðir um að stela rafmagni. Í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér kom fram að um at virðist vera að ræða þar sem fólk sé hvorki beðið um persónuupplýsingar, kortanúmer eða annað slíkt.
Lýsingin á símtölunum virðist stemma við snjallforrit sem býður notendum upp á að kaupa upptökur sem síðan er hægt að senda á símanúmer. Móttakandinn fær þá símtal úr símanúmeri sem hann þekkir ekki og upptakan spilast. Á vefsíðu forritsins segir að notandinn fái síðan senda upptöku af viðbrögðum þess sem fær hana senda.
Þegar hringt er í númerið sem birtist þeim sem lenda í símaatinu segir aðeins að símanúmerið hafi ekki verið rétt valið.
Nokkrar upptökur á íslensku virðast vera í boði á íslensku, þar á meðal ein um „rafmagnsleysi“.
„Við hringjum í vin þinn eða vinkonu frá rafmagnsveitunni og segjumst ætla að loka á rafmagnið af því að han sé búinn að tengja sig viinn á rafmagnið hjá nágrannanum. TIl að sleppa við þetta, verður vinur þinn eða vinkona að borga!“ segir í lýsingu á upptökunni sem er sögð fyrir alla aldurshópa.
Aðrar upptökur virðast svæsnir. Þannig er ein ætluð fyrir karlkyns vini sendandans þar sem móttakandinn er krafinn svara á hvers vegna hann sé að hringja í kærustu þess sem hringir.
„Við hringjum í vin þinn eða vinkonu og spyrjum af hverju það eru að berast svona hrikalega hávær kynlífshljóð frá íbúðinni þeirra. Það er eins og að Tarzan búi þarna!“ segir í lýsingu á upptökunni „Læti frá íbúðinni“.

Lögreglan á Norðurlandi eystra varaði við svikasímtölum þar sem logið er upp á fólk sökum um að það hafi lent í óhappi. Í færslu á Facebook-síðu embættisins kom fram að það hefði fengið tilkynningar um slík símtöl og að grunur leiki á að smáforrit sé notað í hrekk.
Það virðist stemma við lýsingu á upptöku í snjallforritinu þar sem móttakandinn er krafinn um greiðslu fyrir að hafa ekið á bíl.
Fréttin hefur verið uppfærð.