Fram virðist ætla að mæta laskað til leiks eftir nokkurra ára fjarveru úr efstu deild karla í knattspyrnu hér á landi. Miðvörðurinn Kyle McLagan samdi nýverið við Íslandsmeistara Víkings og nú er ljóst að vinstri bakvörðurinn Haraldur Einar mun ekki leika með liðinu á næstu leiktíð.
Haraldur sem er fæddur árið 2000 var í lykilhlutverki er Fram sló stigamet í Lengjudeild karla á síðustu leiktíð. Hann hefur alls leikið 104 KSÍ leiki og skorað í þeim fjögur mörk.
Hann kemur til með að veita Ólafi Guðmundssyni samkeppni um stöðu vinstri bakvarðar FH-liðsins en Hjörtur Logi Valgarðsson liggur undir feld varðandi hvort hann verði áfram hjá félaginu eða skórnir fari mögulega á hilluna.
Velkominn í Kaplakrika. Haraldur Einar Ásgrímsson til FH! #ViðerumFH pic.twitter.com/aQqvyj2RNU
— FHingar (@fhingar) November 12, 2021
„Það er mikið gleðiefni fyrir okkur FH-inga að fá Harald í Kaplakrika enda hluti af stefnu félagsins að fá unga öfluga leikmenn til að spila í hvítu treyjunni,“ segir í yfirlýsingu FH um komu Haraldar Einars.