Pétur, sem er 26 ára Seltirningur, sleit krossband í hné á æfingu Blika á mánudaginn. Þetta er í þriðja sinn á ferlinum sem Pétur slítur krossband í sama hné.
„Þetta er ótrúlega mikið sjokk. Ég var nánast hættur að hugsa um þennan möguleika og datt ekki í hug að þetta myndi gerast aftur. Þegar þetta gerðist var verkurinn mjög mikill en maður var samt að hugsa um eitthvað allt annað en þann verk,“ segir Pétur.
Pétur skoraði 23 mörk í Lengjudeildinni á síðustu leiktíð og var nálægt því að setja markamet í deildinni. Eftir að hafa spilað með Gróttu allan sinn feril, fyrir utan nokkra leiki með Kríu eftir að hann sleit krossband tvisvar 2013 og 2014, var hins vegar komið að því að fara í toppbaráttu úrvalsdeildarinnar og Evrópuleiki með Breiðabliki næsta sumar. Á því verður bið.
Aldrei í betra líkamlegu standi
„Ég held að ég hafi aldrei verið í betra líkamlegu standi en núna þannig að þetta kemur bara mjög mikið á óvart. Ég var virkilega spenntur fyrir þessu verkefni hjá Breiðabliki og það er grautfúlt að byrja þetta svona,“ segir Pétur og bætir við:
„Ég var strax handviss um að þetta yrði niðurstaðan þegar ég meiddist. Ég fer svo í aðgerð eftir um þrjár vikur, þegar bólga í hnénu er farin. Læknirinn sagði að ég yrði svo í minnsta lagi níu mánuði að jafna mig.“

Og Pétur segir meiðslin enn alvarlegri en ella þar sem um endurtekið efni sé að ræða:
„Læknirinn sagði já að þetta yrði ekkert betra. Það er mjög erfitt þegar þetta er að gerast í þriðja skipti og það gæti hægt á endurkomunni, en það er mjög misjafnt.“
Langar að komast út úr þessu þó að það verði erfitt
Pétur segist fá góðan stuðning frá þjálfarateymi og öðrum hjá Breiðabliki en aðalþjálfarann, Óskar Hrafn Þorvaldsson, þekkir Pétur vel frá því hjá Gróttu.
„Ég fæ eitthvað prógramm svo ég geti mætt og sinnt mínum æfingum, og svo verðum við bara að sjá hvað gerist. Ég fæ mjög mikinn stuðning frá öllum; sjúkraþjálfaranum, Óskari og öllum í þjálfarateyminu, svo ég er í mjög góðum málum,“ segir Pétur. En kemur það til greina að takkaskórnir fari á hilluna?
„Þetta er allt nýbúið að gerast en nei, í raun ekki. Mig langar að halda áfram. Ég er samningsbundinn og langar að spila fyrir Breiðablik, og að komast út úr þessu þó að það verði erfitt.“