Suðurkóresku þættirnir hafa notið gríðarlegra vinsælda frá því að þeir voru frumsýndir á Netflix í síðasta mánuði. Þættirnir fjalla um stórskuldugt fólk sem keppir í ýmsum barnaleikjum fyrir háar fjárhæðir í vinning. Leikirnir eru ekki hefðbundnir og mikið í húfi en takist leikmönnum ekki að klára leikina eða vinna þá eru þeir drepnir.
Strax eftir frumsýningu fóru hrekkjavökubúningar úr sjónvarpsþáttunum að skjóta upp kollinum í verslunum, jafnvel í barnastærðum. Grunnskólarnir þrír í New York hafa tekið málið heljartaki og tilkynnt foreldrum að búningarnir flokkist sem of hræðilegir búningar.
Samkvæmt reglum skólasvæðisins Fayetteville-Manlius í New York eru allir hrekkjavökubúningar sem sýna vopn eða þau sem teljast of ógeðslegir eða hræðilegir bannaðir.
Craig Tice, stjórnandi skólasvæðisins, sagði í samtali við CBS News í dag að búningarnir flokkuðust undir það. Ástandið í skólum hafi þá versnað talsvert síðan þættirnir komu út. Nemendur hafi jafnvel verið að endurleika senur úr þáttunum í frímínútum. Þessir leikir væru að mati Tice ekki viðeigandi þar sem mikið ofbeldi tengdist þeim.
Í Bandaríkjunum eru þættirnir bannaðir börnum undir sautján ára aldri en þrátt fyrir það hafa einhverjir foreldrar kvartað undan banninu.
Á Bretlandi hafa kennarar lýst því að börn allt niður í sex ára aldur sést leika sér í þeim leikjum sem farið er í, í þáttunum.