Góðu fréttirnar í þjóðhagsspánni eru að hagvöxtur verði 5,1 prósent á þessu ári og 5,5 prósent á því næsta sem eru mikil umskipti frá 6,5 prósenta samdrætti í fyrra. Atvinnuleysi minnki hratt, ferðaþjónustan að taka við sér og stór loðnuvertíð framundan.
Slæmu fréttirnar eru hins vegar þær að verðbólgan nái ekki 2,5 prósenta markmiði Seðlabankans fyrr en haustið 2023. Þá verði meginvextir hans komnir í 4,25 prósent en þeir eru 1,5 prósent í dag.
Það þýðir að vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum með breytilegum vöxtum og nýjum húsnæðislánum fari stighækkandi næstu tvö árin.

Engu að síður hefur hagdeild Landsbankans ekki áhyggjur af húsnæðismarkaðnum, að sögn Unu Jónsdóttur hagfræðings hjá bankanum.
„Við teljum líkur á að húsnæðismarkaðurinn færist smám saman í átt að jafnvægi. Auðvitað hafa hækkanir verið mjög miklar upp á síðkastið en við spáum því að það hægi aðeins á,“ segir Una. Það taki tíma fyrir aðgerðir Seðlabankans með vaxtahækkunum og þaki á greiðslubyrði og veðhlutföllum að virka.

Í þjóðhagsspánni kemur fram að húsnæðismarkaðurinn hér einkennist af meiri sveifum en á hinum Norðurlöndunum.

Hér séu þó að jafnaði byggðar fleiri íbúðir á hverja hundrað þúsund íbúa en í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Árið 2023 verði íbúðafjárfestingin komin í 185 milljarða eða nánast sömu upphæð á föstu verðlagi og ári fyrir hrun árið 2007.

Una segir að samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins á íbúðum í byggingu væru horfur góðar um fjölda fullbúinna íbúða á markaði.
„Þau gera ráð fyrir að þær verði tvö þúsund á næsta ári og tvö þúsund og þrjú hundruð árið á eftir. Ef okkur fjölgar að jafnaði á sama hraða og áður og um það bil jafn margir búi í íbúð og verið hefur þurfa um það bil 1.800 fullbúnar íbúðir að skila sér árlega á næstu árum,“ segir Una.
Samkvæmt þjóðhagsspánni muni íbúðaverð hækka um 14 prósent milli ára á þessu ári en hækkunin verði minni á næsta ári og árum.

„Íbúðaverð mun hækka áfram en kannski um sirka níu prósent á næsta ári. Svo dettur það niður í fjögur og fimm prósent hækkanir milli ára,“ segir Una Jónsdóttir.