Verðlaunin eru ein þau virtustu á sviði mannréttinda og eru kennd við sovéska mannréttindafrömuðinn Andrei Sakharov.
Navalní á ekki hægt um vik með að veita verðlaununum viðtöku þar sem hann afplánar nú tveggja ára fangelsisdóm í fangabúðum í heimalandi sínu.
Síðasta áratuginn eða svo hefur Navalní staðið í fylkingarbrjósti andstöðu gegn Vladimir Pútín Rússlandsforseta og oft mátt gjalda fyrir. Navalní hefur meðal annars sakað stjórnvöld um að hafa reynt að ráða sig af dögum, en hann lifði naumlega af þegar var eitrað fyrir honum með taugaeitri á síðasta ári.

David Sassoli, forseti Evrópuþingsins, skrifaði af þessu tilefni á Twitter að Navalní hafi „barist ötullega gegn hinni spilltu stjórn Vladimir Pútíns.“
„Fyrir það hefur hann goldið með frelsi, og næstum lífi sínu“, segir hann og bætir við.
„Þessi verðlaun eru viðurkenning á hugrekki hans og við ítrekum kröfu okkar um að honum verði sleppt úr haldi umsvifalaust.“
Alexei @navalny is the winner of this year's #SakharovPrize. He has fought tirelessly against the corruption of Vladimir Putin's regime. This cost him his liberty and nearly his life. Today's prize recognises his immense bravery and we reiterate our call for his immediate release pic.twitter.com/Jox7I280kz
— David Sassoli (@EP_President) October 20, 2021
Meðal fyrri handhafa Sakharov-verðlaunanna eru Nelson Mandela, Malala Júsafsaí og andófsfólk í Hvítrússlandi.