Greint var frá málinu í dagbók lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í morgun en tilkynning hljóðaði upp á „hópslagsmál við Hagkaup í Garðabæ“. Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að slagsmálin virðist hafa átt einhvern aðdraganda.
Miðað við framburð þolenda, þriggja pilta á aldrinum 16-17 ára, hafi gerendur ráðist á vin þeirra fyrr um kvöldið og svo beint spjótum sínum að þremenningunum um nóttina. Vinurinn hafi farið á slysadeild en enginn hafi þó hlotið áverka í slagsmálum næturinnar við Hagkaup.
Lögregla telji sig hafa vísbendingar um hverjir gerendur séu og málið sé í rannsókn. Koma verði í ljós hvort því verði fylgt eftir með kærum.