„Þetta er búinn að vera hrikalega erfiður tími undanfarin ár.“
Guðmundur segir staðina hafa verið 620 fermetra að stærð og svo mikil stærð hafi kallað á marga starfsmenn. Það hafi gert reksturinn mjög erfiðan samhliða sóttvarnaraðgerðum.
„Þegar það mega bara vera tíu til tuttugu manns þarna inni, þá er þetta ofboðslega erfitt.“
Heyrt af mörgum í erfiðleikum
Hann sagðist hafa heyrt af mörgum í þessum geira sem hefðu ekki náð sér á strik vegna Covid-19. Ástandið sé búið að vera hrikalega erfitt og eigi örugglega eftir að vera erfitt áfram.
Auk Covid-19 hafi aðföng við veitingarekstur hækkað mjög í verði auk launa. Það séu í raun nokkrar ástæður fyrir því að hann hafi tekið þá ákvörðun að loka en Covid-19 sé sú stærsta.
„Ég er stoltur af þeim sem eru að þrauka í þessum bransa.“

Guðmundur segist hafa verið að vonast til þess að hlutirnir myndu lagast en það hefði ekki gerst nægilega vel. Þau hafi aldrei náð kvöldaðsókninni aftur upp samhliða niðurfellingu sóttvarnar- og samkomureglna.
„Það var alltaf nóg að gera í hádeginu og það lét þetta fljóta áfram. Kvöldtraffíkin kom þó aldrei aftur,“ segir Guðmundur.
Í annarri vinnu og námi
Hann segir þetta mjög leiðinlegt en að sama tíma sé þetta ákveðinn léttir. Áhuginn fyrir veitingarekstri hafi farið þverandi.
„Maður er búinn að vera þarna lengi og launalaust. Þetta hefur verið stöðugur barningur. Á sama tíma hef ég verið í annarri vinnu, námi og að sinna öðrum málum.“
Guðmundur er formaður Afstöðu félags fanga. Hann hafði rekið staðina í tæp fjögur ár en hann byrjaði að undiribúa reksturinn þegar hann var í afplánun á Sogni.
„Þetta var aðallega spurning hvort maður ætti að bíða og vona eftir að ástandið yrði betra, og safna skuldum á meðan, eða bara hætta. Ég var ekki að sjá að þetta væri að fara að lagast.“
Sér ekki fyrir sér að byrja aftur
Guðmundur segist enn eiga nöfn staðanna, Rakang Thai og Blásteinn, en hann sé ekkert búinn að ákveða um framhaldið. Hann segist hafa verið með frábært starfsfólk í vinnu frá upphafi og mögulega hægt að opna staðinn aftur í mun smærri mynd en áður. Hins vegar sjái hann það ekki fyrir sér að svo stöddu.
„Maður á aldrei að segja aldrei en persónulega finnst mér ólíklegt að ég sé að fara aftur í veitingabransann. Það var erfitt að taka þessa ákvörðun en þegar það var búið var það léttir.“
