Forstjóri Landspítalans segir sjúkrahúsið ágætlega í stakk búið til að takast á við faraldurinn í þeirri mynd sem hann er í dag. Öðru máli gegnir ef ráðast á í afléttingar.
„Hvað varðar Landspítala þá þurfum við í fyrsta lagi að athuga hvaða getu Landspítalinn hefur til að greina sýni og í öðru lagi hvað Covid-göngudeildin getur annað. Síðan kannski legurýmin og ekki síst gjörgæslan. Allir þessir þættir það er bæði sýnatakan, Covid-göngudeildin og legurýmin kalla á ákveðinn mannskap og það er kannski þar sem að skóinn kreppir, segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri Landspítalans.
Hún segir stjórnvöld hafa tekið vel í allar umleitanir spítalans hingað til í gegnum faraldurinn. Stærsti vandinn í gegnum faraldurinn hafi verið að láta aðra þjónustu víkja fyrir Covid verkefnum.
„Við höfum þurft að loka A7 sem er smitsjúkdómadeildin okkar fyrir öðrum innlögnum. Það hefur kallað á mjög miklar aðgerðir af okkar hálfu til þess að láta hlutina ganga upp,“ segir Guðlaug Rakel.
Hún mun eiga fund með sóttvarnalækni um stöðuna á föstudag. Hún telur sóttvarnalækni ekki setja Landspítalann í erfiða stöðu með því að setja ábyrgðina á stjórnendur hans að svara spurningunni hvað spítalinn ráði við mikið, en hingað til hefur svar við þeirri spurningu ekki fengist.
„Mér finnst þetta bara eðlilegt samtal og við munum eiga það og við komumst að niðurstöðu,“ segir Guðlaug Rakel.