Í hesthúsinu í Margrétarhofi í Ásahreppi er Úndína Ýr Þorgrímsdóttir, dýralæknanemi í Kaupmannahafnarháskóla, Pabbi hennar, Þorgrímur Hallgrímsson, alltaf kallaður Toggi og Nanna Luthersson, danskur dýralæknir að magaspegla hross, sem er vísindarannsókn og lokaverkefni Úndínu í dýralæknanámi sínu. Úndína keypti sérstakt magaspeglunartæki fyrir hross til að geta unnið rannsókn sína.
„Magasár er algengasti sjúkdómur í maga í hrossum og hann er lítið rannsakaður hérna heima á Íslandi, eiginlega bara ekki neitt, þannig að ég sá bara kjörið tækifæri að læra og fræðast meira um íslenska hestinn, fædd og uppalinn í hestamennsku,“ segir Úndína.
En af hverju fá hestar magasár?
„Það getur annars vegar verið fóðurtengt eða stress tengt og það er það sem við erum að reyna að komast að niðurstöðu eftir þessa rannsókn, hvað íslenska náttúran er að gera og hvað við sem mannfólk, hvernig við höfum áhrif þróun magasárs á hrossum.“
Eru hestar stressaðir og af hverju eru þeir þá stressaðir?

„Af hverju er mannfólk stressað ? Það eru allur gangur á, hestar eru með sinn eigin persónuleika, sína eigin sál og þeir eru jafn fjölbreyttir og þeir eru margir,“ segir Úndína.
Nanna dýralæknir segist vera stolt af því að Úndína hafi ákveðið að gera rannsókn á magasárum.
„Hún gerir þetta svo vel, hún á eftir að hafa nóga vinnu næstu þrjátíu árin hérna heima með þetta tæki, sem hún hefur keypt eða fjölskylda hennar, ég er mjög ánægð,“ segir Nanna.
