Alls fjölgaði þeim sem greinst hafa með Covid-19 á Norðurlandi eystra um sautján á milli daga. 144 eru í einangrun á svæðinu, þar af 116 á Akureyri og 22 á Húsavík og Þingeyjarsveit.
Töluverður fjöldi losnaði hins vegar úr sóttkví á milli daga. Tekin voru tæplega sjö hundruð sýni á Akureyri í gær og fækkaði þeim sem var í sóttkví á Norðurlandi eystra um 327 á milli daga. 941 er í sóttkví, þar af 818 á Akureyri.
Skýringin á þessari talsverðu fækkunar einstaklinga í sóttkví skýrist af því að fjöldi grunnskólabarna sem fór í sóttkví í síðustu viku fór í skimun í gær, til þess að losna úr sóttkví.
Er því búist við áframhaldandi eril í sýnatöku á Akureyri. Af þeim sökum verður opið lengur í sýnatöku þar, eða til klukkan fimmtán í dag. Þá verður einnig opið í sýnatöku á Húsavík um helgina.
Hópsýkingin á Akureyri, sem einkum hefur verið tengd við grunnskólana í bænum, hefur sett sinn svip á skólastarfið. Á vef Akureyrarbæjar kemur fram að 62 nemendur og níu starfsmenn í grunnskólum bæjarins séu í einangrun með Covid-19.
Þá er eitt barn í leikskólum bæjarins í einangrun, en 43 börn og starfsmenn í sóttkví.