Handbolti

Ómar Ingi og Gísli Þorgeir enn með fullt hús stiga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon lætur vaða á markið yfir Arnar Freyr Arnarsson í leik Magdeburg og Melsungen í dag.
Ómar Ingi Magnússon lætur vaða á markið yfir Arnar Freyr Arnarsson í leik Magdeburg og Melsungen í dag. Swen Pförtner/picture alliance via Getty Images

Fjórir leikir fóru fram í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag, en þrír af þeim voru Íslendingaslagir. Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson hafa unnið alla sex leiki sína í deildinn með Magdeburg eftir þriggja marka sigur gegn MT Melsungen, 27-24.

Gestirnir í Magdeburg lentu undir á fyrstu mínútum leiksins, en tóku völdin fljótlega eftir það. Liðið náði mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik og staðan var 15-11 þegar gengið var til búningsherbergja.

Í liði Melsungen eru þrír Íslendingar. Það eru þeir Elvar Örn Jónsson, Arnar Freyr Arnarsson og Alexander Petersson, en þeir náðu að minnka muninn í eitt mark í seinni hálfleik. Nær komust þeir þó ekki og það voru því Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson sem fögnuðu 27-24 sigri með Magdeburg.

Magdeburg er á toppi deildarinnar með sex sigra í fyrstu sex leikjum tímabilsins. Melsungen hefur aðeins unnið einn af fyrstu fimm leikjum sínum og situr í 11. sæti.

Janus Daði Smárason og félagar hans í Göppingen unnu góðan sigur þegar að liðið tók á móti Arnóri Þór Gunnarssyni og félögum hans í Bergischer, 27-24.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, en í þeim seinni virtust Janus og félagar alltaf vera skrefi á undan. Þeir unnu að lokum góðan þriggja marka sigur og sitja nú í fjórða sæti deildarinnar með átta stig eftir fimm leiki, tveim stigum á undan Bergischer sem situr í því sjötta.

Í þriðja Íslendingaslag dagsins tóku Bjarki Már Elísson og félagar hans í Lemgo á móti Daníel Þór Ingasyni og félögum í HBW Balingen-Weilstetten. 

Sigur Lemgo var aldrei í hættu, en í hálfleik var staðan 21-13. Seinni hálfleikur var heldur jafnari og að lokum unnu Bjarki Már og félagar tíu marka sigur, 38-28.

Þetta var fyrsti sigur Lemgo á tímabilinu, en liðið situr í 12. sæti með þrjú stig, einu stigi meira en Balingen sem situr í 16. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×