Vísir ætlar að kafa aðeins í tölfræði Wyscout frá nýloknu tímabili í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu en þar má finna margt áhugavert nú þegar síðasti leikurinn hefur verið spilaður í Pepsi Max deild karla 2021.
Allir þrír miðverðir Víkinga, Sölvi Geir Ottesen, Halldór Smári Sigurðsson og Kári Árnason, eru inn á topp tíu listanum yfir þá sem unnu hlutfallslega flest skallaeinvígi í leikjum sínum í sumar.
Sá sem er efstur á listanum er þó HK-ingurinn Örvar Eggertsson sem vann 75,6 prósent þeirra skallaeinvíga sem hann fór í sumar.
Sölvi Geir er í öðru sæti með 71,8 prósent árangur og Halldór Smári er þriðji með 70,9 prósent árangur. Kári er síðan í níunda sætinu með 62,9 prósent árangur í skallaeinvígum. Kári er sá eini sem er bæði meðal átta efstu á listunum yfir heildarskallaeinvígi og besta gengið í skallaeinvígum.
Það þarf því ekki að koma á óvart að Víkingur er efst félaga í deildinni þegar kemur að gengi í skallaeinvígum en Vikingar unnu 51,9 prósent skallaeinvíga sinna í vetur. Aðeins þrjú önnur félög voru yfir fimmtíu prósent eða HK (51,6%), KR (50,6%) og ÍA (50,1%).
Það var líka leikmaður Víkings sem fór í flest skallaeinvígi í deildinni en það var framherjinn og markakóngurinn Nikolaj Hansen. Hansen fór alls í 205 skallaeinvígi í sumar eða fjórtán fleiri en Stjörnumaðurinn Egill Atlason sem kom næstur. Kári er í áttunda sæti listans.
Leiknismaðurinn Brynjar Hlöðversson og Skagamaðurinn Alexander Davey fóru í flest skallaeinvígi í eigin vítateig eða 36 hvor. Kári Árnason fór í einu færra en hann tók út leikbann í lokaleik tímabilsins.
HK-ingurinn Martin Rauschenberg vann hæsta hlutfall skallaeinvíga í eigin teig af miðvörðunum eða 84,2 prósent en hann var aðeins hærri en KA-maðurinn Brynjar Ingi Bjarnason sem vann 82,4 prósent.
- Hæsta hlutfall unninna skallaeinvíga í Pepsi Max deild karla 2021:
- 1. Örvar Eggertsson, HK 75,6%
- 2. Sölvi Geir Ottesen, Víkingi 71,8%
- 3. Halldór Smári Sigurðsson, Víkingi 70,9%
- 4. Ísak Snær Þorvaldsson, ÍA 69,9%
- 5. Birkir Valur Jónsson, HK 67,3%
- 6. Alexander Davey, ÍA 66,4%
- 7. Torfi Tímoteus Gunnarsson, Fylki 64,9%
- 8. Guðmann Þórisson, FH 64,3%
- 9. Kári Árnason, Víkingi 62,9%
- 10. Brynjar Hlöðversson, Leikni 62,8%
- -
- Flest skallaeinvígi í Pepsi Max deild karla 2021:
- 1. Nikolaj Hansen, Víkingi 205
- 2. Egill Atlason, Stjörnunni 191
- 3. Ægir Jarl Jónasson, KR 178
- 4. Josep Arthur Gibbs, Keflavík 174
- 5. Matthías Vilhjálmsson, FH 169
- 6. Viktor Jónsson, ÍA 165
- 7. Stefan Alexander Ljubicic, HK 150
- 8. Kári Árnason, Víkingi 140
- 9. Haukur Páll Sigurðsson, Val 139
- 10. Brynjar Hlöðversson, Leikni 121