Sjálfstæðisflokkurinn styrkti stöðu sína í Reykjavíkurkjördæmi suður í kosningunum í ár. Flokkurinn fékk 8.089 atkvæði (22,8%) bætti við sig einum þingmanni en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Hildur Sverrisdóttir og þingflokksformaðurinn Birgir Ármannsson náðu öll sæti á Alþingi.
Kristrún Frosta ný inn
Vinstri græn, sem fengu 5.212 atkvæði (14,7%), ná tveimur þingmönnum í kjördæminu líkt og í síðustu kosningum. Svandís Svavarsdóttir var kjördæmakjörin en Orri Páll Jóhannsson náði öðru jöfnunarþingsæta kjördæmisins.
Kristrún Mjöll Frostadóttir, sem spilaði á harmonikku í kosningasjónvarpi Stöðvar 2 í gær, kemur ný inn á þing fyrir Samfylkinguna. Flokkurinn fékk 4.720 atkvæði (13,3%) í kjördæminu.
Lilja Alfreðs hélt velli
Lilja Dögg Alfreðsdóttir verður áfram eini þingmaður Framsóknar í kjördæminu en flokkurinn fékk 4.077 atkvæði (11,5%) í kjördæminu.
Píratar halda sínum tveimur þingmönnum en flokkurinn fékk 3.875 atkvæði (10,9%). Björn Leví Gunnarsson verður áfram þingmaður flokksins og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir kemur ný inn á þing sem jöfnunarþingmaður.

Viðreisn og Flokkur fólksins fengu hvort sinn þingmanninn í kjördæminu. Hanna Katrín Friðriksson og Inga Sæland verða áfram fulltrúar flokkanna á þingi.
Eftir að lokatölur höfðu verið kynntar í öllum kjördæmum um klukkan níu í morgun var Rósa Björk Brynjólfsdóttir Samfylkingu, annar jöfnunarþingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður ásamt Arndísi Önnu K. Gunnarsdóttur Pírata. Eftir að niðurstaða endurtalningar í Norðvesturkjördæmi var kynnt síðdegis í dag varð hins vegar ljóst að Orri Páll Jóhannsson, Vinstri grænum, fengi jöfnunarþingsætið í stað Rósu Bjarkar.
Fréttin hefur verið uppfærð.