Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu. Ekki liggur fyrir hversu lengi maðurinn var meðvitundarlaus á botni lónsins.
Lögreglan hefur andlátið til rannsóknar en ekki er grunur um að það hafi borið að með saknæmum hætti.
„Hvernig hann endar meðvitundarlaus á botni laugarinnar, það er til rannsóknar,“ segir Grímur.

Maðurinn, sem var íslenskur karlmaður á þrítugsaldri, var gestkomandi í baðlóninu en aðrir gestir Sky Lagoon urðu vitni að miklum viðbúnaði lögreglu- og sjúkraflutningamanna sem komu á vettvang með miklum hraði um sex leytið síðastliðið þriðjudagskvöld.
Endurlífgunartilraunir hófust á vettvangi um leið og maðurinn uppgötvaðist á botni lónsins. Var hann fluttur á Landspítalann þar sem hann var úrskurðaður látinn.
Lögreglan hefur rætt við gesti baðlónsins sem voru staddir þar á sama tíma og hefur einnig upptökur úr eftirlitsmyndavélum til skoðunar.