Leikur kvöldsins var í raun aldrei spennandi, Valur náði snemma upp góðri forystu sem liðið lét aldrei af hendi. Munurinn var orðinn fimm mörk strax eftir tíu mínútna leik, staðan þá 8-3 Val í vil. Er flautað var til loka fyrri hálfleiks var staðan orðin 17-11 og í raun ljóst í hvað stefndi.
Munurinn fór niður í þrjú mörk á einum tímapunkti í síðari hálfleik en nær komust gestirnir úr Hafnafirði ekki. Heimamenn stigu á bensíngjöfina og stungu af, lokatölur 34-24.
Finnur Ingi Stefánsson og Vignir Stefánsson skoruðu níu mörk hvor í liði Vals. Þá varði Björgvin Páll Gústavsson tíu skot í markinu og Sakai Motoki varði fimm af þeim níu sem hann fékk á sig.
Hjá FH var Ásbjörn Friðriksson markahæstur með sex mörk meðan markvarslan var lítil sem engin.
Valur er komið í undanúrslit Coca Cola-bikars karla ásamt Stjörnunni, Fram og Aftureldingu. Undanúrslitaleikirnir fara fram 30. september næstkomandi.