Frá þessu er greint á Akureyri.net þar sem segir að fyrirtækuð Húsheild ehf. í Mývatnssveit hafi verið eini vertakinn sem bauð í verkið.
Húsheild bauð 910 milljónir en haft er eftir Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, framkvæmdastjóra innanlandsflugvalla Isavia, að það sé mun hærra en kostnaðaráætlun geri ráð fyrir.
Þar er einnig haft eftir henni að verktökum hafi þótt ýmis útboðsskilyrði of ströng og því sé verið að að fara yfir útboðsgögnin með það að markmiði að bjóða verkið út að nýju í október.
Stefnt er að því að taka nýja flugstöð í notkun árið 2023 en framkvæmdir við stærra flughlað við flugvöllinn eru hafnar.
Heimamenn hafa lengi kallað eftir því að aðstaðan verði bætt á Akureyrarflugvelli svo taka megi við fleiri farþegum í einu. Dæmi eru um það að farþegar sem koma til Akureyri um flugvöllinn frá útlöndum hafi þurft að bíða í strætisvögnum á flughlaðinu, þar sem ekki var pláss fyrir alla að bíða í biðröð í flugstöðinni eftir því að komast í öryggisleit.