Í tilkynningu um málþingið segir að SÍF, sem er hagsmunafélag framhaldsskólanemenda á landsvísu, hafi um árabil barist fyrir auknu aðgengi að sálfræðiþjónustu fyrir nemendur og lýsi nú yfir verulegum áhyggjum af andlegri heilsu nemenda.
„Bendir félagið á að öll viðvörunarljós logi rauð og furðar sig á viðbragðsleysi stjórnvalda við þeim sláandi tölum sem berast úr öllum áttum.
Síðastliðinn vetur gerði félagið tvær kannanir, annars vegar úttekt á þeirri stoðþjónustu sem stendur nemendum til boða í þeim 31 skólum sem eiga aðild að SÍF, þ.e.a.s. nemendafélögin eru aðildarfélög SÍF og hinsvegar á þeirri sálfræðiþjónustu sem stendur nemendum til boða, innan skólanna og á heilsugæslum. Meðal niðurstaðna má nefna að boðið er upp á sálfræðiþjónustu í innan við helmingi skólanna og meðal biðtími eftir viðtali hjá sálfræðingi á heilsugæslu er 9,5 vikur.
Í tilefni að útgáfu skýrslunnar mun félagið standa fyrir hádegismálþingi fimmtudaginn 2.september sem ber yfirskriftina Geðheilbrigði framhaldsskólanema: Málþing um aðgengi að sálfræðiþjónustu,“ segir í tilkynningunni, en málþingið fer fram í Hinu húsinu, ungmennahúsi Reykjavíkurborgar.
Dagskrá:
10:30 - Setning málþings
10:35 - 12:10 erindi:
- Sigvaldi Sigurðarson, verkefnastjóri á skrifstofu SÍF - Í frjálsu falli
- Guðrún Randalín, aðstoðarskólameistari Tækniskólans. - Kæri sáli - reynsla Tækniskólans af sálfræðiþjónustu innan skólans.
- Fríður Reynisdóttir, náms- og starfsráðgjafi við Menntaskólann við Hamrahlíð. - Heildstæð stoðþjónusta fyrir framhaldsskólanemendur.
- Júlíana Garðarsdóttir, sálfræðingur við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ. - Að vinna í skólanum.
- Aníta Þula Benediktsdóttir Cummings - Reynslusaga nemanda.
11:50 - 12:20 Hádegishlé - boðið verður upp á léttar veitingar.
- Ávarp: Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra
- Ávarp: Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra
12:30 - 13:15 Pallborðsumræður