Meðalaldur innlagðra er 57 ár en fimm af níu sjúklingum á bráðalegudeildum eru óbólusettir. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Landspítala sem birtar voru síðdegis í dag.
Alls hafa 92 sjúklingar lagst inn á Landspítala með Covid-19 í fjórðu bylgju faraldursins og var um þriðjungur þeirra óbólusettur. Sextán hafa þurft gjörgæslustuðning.
Klukkan 15 í dag voru 888 sjúklingar, þar af 179 börn, í eftirliti á Covid-göngudeild spítalans. Tveir sjúklingar eru metnir rauðir og gætu þurft innlögn en 29 gulir sem þurfa nánara eftirlit.
Minnst 84 greindust með sjúkdóminn innanlands í gær en af þeim voru 34 utan sóttkvíar við greiningu. 28 voru óbólusettir.
Tveir sjúklingar hafa látist í fjórðu bylgju faraldursins. Báðir voru erlendir ferðamenn í ferðalagi á Íslandi.