Fjöldi Afgana er enn vongóður um að komast frá landinu nú þegar Talibanar hafa tekið völdin. Nú styttist hins vegar í að allt herlið eigi að vera farið frá landinu, en það á að gerast þann 31. ágúst, og eftir það fækkar möguleikum Afgana sem vilja komast á brott umtalsvert.
Breski herinn hættir senn sínum aðgerðum í landinu og flest önnur Evrópuríki munu ekki fara fleiri ferðir. Búist er við því að Bandaríkjamenn verði síðastir til að fara frá Afganistan en þeir eiga eftir að flytja stóran hluta herliðs síns frá landinu og því tiltölulega lítið pláss eftir fyrir afganskt flóttafólk.
Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hefur einungis tekist að sækja lítinn hluta af þeim allt að 120 Afgönum sem ríkisstjórnin samþykkti að reyna að koma til landsins. Óljóst sé hvernig hægt verður að sækja fleiri nú þegar loftbrúin er að lokast.
Mikið skelfingarástand braust út í gær þegar vígamenn íslamska ríkisins gerðu árás á hermenn og almenna borgara við flugvöllinn. Bandaríkjastjórn segir þrettán bandaríska hermenn á meðal hinna látnu og hét Joe Biden forseti því í gærkvöldi að leita hefnda.
Bandaríkjamenn muni hvorki gleyma né fyrirgefa árásarmönnunum. Þeir verði leitaðir uppi og látnir gjalda fyrir verk sín, sagði Biden.