Morgunblaðið greinir frá því í dag að áhöfnum Play hefði verið boðið að taka á sig allt að 50 prósent lækkun á starfshlutfalli, gegn því að fá fastráðningu í vetur. Birgir Jónsson forstjóri félagsins segir aðeins um tillögu að ræða. Fastráðnu starfsfólki væri í sjálfsvald sett hvort það vildi lækka í starfshlutfalli svo hægt væri að dreifa vinnunni á fleira starfsfólk en samningar þess rynnu annars út í haust.
„Hvort það sé leið til þess að raunverulega tryggja fleirum vinnu í vetur, með því að leita eftir sjálfboðaliðum af þeim sem eru fastráðnir eða í fullu starfi um að minnka starfshlutfallið sitt svo að vinnan sem við sjáum fyrir okkur í vetur dreifist á fleiri hausa,“ segir Birgir.
Fólkið sem fer í haust verði fyrst inn í vor
Útlit sé fyrir að umsvif Play aukist næsta vor, þegar félagið byrji flug til Bandaríkjanna. Það starfsfólk sem ekki fengi vinnu í vetur yrði þá fyrst inn.
„Við í raun og veru köstum þessu fram sem umræðupunkti og það hafa bara margir tekið jákvætt í þetta, enda hentar þetta fólki misvel. Það er engin skylda að gera þetta, en sumir eru í skóla eða jafnvel í annarri vinnu, því það lá alltaf fyrir að vinnan hjá okkur fyrstu mánuðina yrði frekar lítil, því við erum að hefja starfsemi í miðjum veirufaraldri.“
Birgir segir tillöguna og viðbrögðin til marks um góðan starfsanda hjá fyrirtækinu og leggur áherslu á að ekki sé um afarkosti að ræða og starfshlutfall fastráðinna starfsmanna verði ekki skert að fyrra bragði.
Í samtali við fréttastofu segir Friðrik Már Ottesen, varaformaður Íslenska flugstéttafélagsins, að málið væri til skoðunar hjá félaginu og lagði áherslu á að úrræðið ætti að vera valfrjálst. Félagið stæði með sínum félagsmönnum og gerði kröfu um að staðið væri við gerða kjarasamninga.