Hafþór Júlíus, sem auk aflrauna hefur meðal annars aflað sér tekna fyrir leik í auglýsingum og sjónvarpsþáttum, var með 9.769.000 króna í tekjur á mánuði. Hann er vinsæll á samfélagsmiðlum og til að mynda með yfir 3,5 milljónir fylgjenda á Instagram.
Næst á lista tekjublaðsins yfir tekjuhæsta fólkið úr íslenskum íþróttaheimi er Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, með tæplega 1,6 milljónir króna á mánuði.
Tekjuhæstu Íslendingana í íþróttaheiminum, samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar, má sjá hér að neðan. Ljóst er að tekjurnar eru ekki í öllum tilvikum alfarið vegna starfa þeirra í íþróttaheiminum.
Tekjuhæsta íþróttafólkið 2020:
- Hafþór Júlíus Björnsson, aflraunamaður, 9.769 þúsund
- Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, 1.592 þúsund
- Anníe Mist Þórisdóttir, Crossfit, 1.282 þúsund
- Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, 1.261 þúsund
- Gísli Örn Reynisson Schramm, vaxtarækt, 1.242 þúsund
- Jóhann Másson, formaður JSÍ, 1.219 þúsund
- Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, 1.198 þúsund
- Davíð Þór Viðarsson, aðstoðarþjálfari FH og sparkspekingur, 1.163 þúsund
- Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, 1.130 þúsund
- Darri Freyr Atlason, fyrrverandi þjálfari KR í körfubolta, 1.108 þúsund
Annie Mist Þórisdóttir, nýbakaður bronsverðlaunahafi á heimsleikunum í Crossfit, er einnig í þriðja sæti á tekjulistanum með tæplega 1,3 milljónir króna. Sara Sigmundsdóttir var með 552 þúsund krónur og Björgvin Karl Guðmundsson, sem varð í 4. sæti á heimsleikunum í Crossfit í ár, var með 439 þúsund krónur.
Í fótboltaheiminum er Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, efst á tekjulistanum með 1.261 þúsund krónur á mánuði. Guðni Bergsson, formaður KSÍ, er ekki á listanum en fram kemur í tekjublaði DV að hann hafi verið með 1.360 þúsund króna á mánuði. Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, var með tæplega 1,2 milljón króna á mánuði og verkfræðingurinn Baldur Sigurðsson, sem leikur með Fjölni, var með 1.066 þúsund krónur í tekjur.
Körfuboltaþjálfarinn Darri Freyr Atlason, sem fyrri hluta síðasta árs þjálfaði kvennalið Vals en tók svo við karlaliði KR, var með 1,1 milljón króna á mánuði í fyrra. Hann hætti þjálfun í vor til að einbeita sér að því að stýra viðskiptaþróun hjá Lucinity, sem er nýsköpunarfyrirtæki í fjártækni.
Í handboltanum er Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, með 1.130 þúsund krónur á mánuði. Sigursteinn Arndal, þjálfari karlaliðs FH og starfsmaður Vodafone, er efstur handboltaþjálfara á listanum með 1.043 þúsund króna í tekjur.