Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst strax í dag og verður hægt að greiða atkvæði hjá sýslumönnum á Íslandi. Erlendis fer kosning utan kjörfundar fram á skrifstofum sendiráða, í aðalræðisskrifstofum eða hjá kjörræðismönnum og verður hægt að ganga til atkvæðagreiðslu hjá þeim strax í dag.
„Íslendingar í útlöndum geta greitt atkvæði utan kjörfundar í sendiráðum Íslands erlendis en líka hjá kjörræðismönnum víða um heim og þá bara eftir samkomulagi,“ segir Sveinn H. Guðmarsson, fjölmiðlafulltrúi Utanríkisráðuneytisins.
Vegna þess ástands sem ríkir í heiminum vegna COVID-19 farsóttarinnar geti þau tilvik komið upp vegna sóttvarnaráðstafana stjórnvalda á hverjum stað, að aðgengi kjósenda að kjörstöðum í útlöndum verði takmarkað.
„Vegna heimsfaraldursins mælum við almennt með því að fólk hafi samband við sendiskrifstofurnar um fyrirkomulagið á hverjum stað,“ segir Sveinn.
Greiði Íslendingar atkvæði erlendis verða þeir að koma atkvæði sínu heim til Íslands að eigin frumkvæði. Mikilvægt sé að fólk geri það í tæka tíð þar sem flug- og póstsamgöngur séu óáreiðanlegar og geti tekið lengri tíma vegna faraldursins.
„Það er mjög mikilvægt að hnykkja einmitt á því að fólk þarf sjálft að annað hvort póstleggja atkvæði sín eða koma þeim á annan hátt í tæka tíð til kjörstjórnar á Íslandi.“