Frá þessu segir í tilkynningu frá Eyri Invest. Fram kemur að Signý sé með MS gráðu í aðgerðarannsóknum frá Columbia háskóla í New York og hafi starfað hjá Landsvirkjun síðustu sex ár, síðast sem forstöðumaður fjárstýringar.
„Sem forstöðumaður bar hún m.a. ábyrgð á fjármögnun og fjárhagslegri áhættustýringu Landsvirkjunar. Þá var Signý einnig í fararbroddi í útgáfu grænna skuldabréfa Landsvirkjunar, sem var fyrsti útgefandi slíkra skuldabréfa á Íslandi.
Signý mun hefja störf í lok ágúst,“ segir í tilkynningunni.
Hrund og Stefán Árni ný inn
Ennfremur segir frá því að á aðalfundi Eyris Invest hafi Hrund Gunnsteinsdóttir og Stefán Árni Auðólfsson komið ný inn í stjórn.
„Hrund er framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Hún er jafnframt ein af stofnendum Nordic Circular Hotspot sem stuðlar að framgangi hringrásarhagkerfisins á Norðurlöndunum. Stefán Árni er meðeigandi á lögfræðistofunni LMG og hefur setið í stjórnum nokkurra skráðra hlutafélaga á Íslandi.
Eyrir Invest hf. er fjárfestingarfélag í eigu fagfjárfesta og einstaklinga. Eyrir er stærsti hluthafi Marel hf. en á auk þess kjölfestuhlut í Eyri Sprotum og Eyri Vexti sem fjárfesta í sprota- og vaxtarfyrirtækjum. Þeim sjóðum er stýrt af Eyri Venture Management sem er dótturfélag Eyris Invest.“