Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins staðfestir þetta í samtali við Ríkisútvarpið.
„Við erum að setja Laugardalshöllina aftur í gang og munum opna hana núna 16. ágúst. Í næstu viku tökum við forgangshópa sem eru kennarar og starfsfólk Landspítala sem eru að taka þennan örvunarskammt á Janssen. Svo munum við keyra upp Laugardalshöllina 16.- 19. ágúst og þá eigum við von á um þ. b. 32.000 manns, um 8.000 á dag í örvunarskammta á Janssen,“ sagði Ragnheiður.
Auk barna og Jansenþega munu þeir sem eru í áhættuhópum vegna veikinda eða aldurs einnig fá örvunarskammt. „„Við erum einnig að horfa til þeirra sem eru ónæmisbældir, eins líka þeir sem eru eldri. Þessu átaki munum við koma að sem mestu í ágúst og svo höldum við áfram koll af kolli eins lengi og þarf,“ segir Ragnheiður.
Þá á auðvitað enn eftir að bólusetja nokkurn hluta fullorðinna en Ragnheiður segir að fólk sé enn að mæta í fyrsta skammt bóluefnis. Það sé ýmist fólk sem hafnaði upphaflega bólusetningu en hefur nú snúist hugur eða fólk sem hefur einfaldlega ekki komist fyrr en nú.
„Hafa verið nemendur að koma erlendis frá. Konur sem hafa verið barnshafandi og eru búnar að eiga. Þetta er fjölbreyttur hópur,“ sagði Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir.