„Það stefnir í fallegan dag þar sem sólin mun koma við sögu í öllum landshlutum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir einnig að við norður- og austurströndina og jafnvel sums staðar inn til landsins byrji dagurinn á þokubökkum við sjóinn.
„Þegar líður á morguninn og sólin rís ætti þokan að eyðast. Það stefnir ekki bara í hægan og bjartan dag heldur er útlit fyrir frekar hlýtt veður eða upp í 20 stig bæði á S- og NA-landi.“
Svipað verður uppi á teningnum á morgun, þó það stefni í hlýrra veður. Sérstaklega fyrir norðan. Sunnanlands er talið að draga muni úr hita vegna skýjabakka.
Veðurhorfur í dag og á morgun, samkvæmt Veðurstofu Íslands:
Hæg breytileg átt eða hafgola, skýjað með köflum og sums staðar þokuloft við ströndina. Léttir víða til þegar kemur fram á daginn, en líkur á stöku síðdegisskúrum fyrir norðan.
Suðaustlæg átt 3-10 m/s á morgun og bjart með köflum, en skýjað við S- og A-ströndina. Hiti 13 til 22 stig yfir daginn, hlýjast NA-lands.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag:
Suðaustlæg átt 3-10 m/s og bjart með köflum, en skýjað með S-ströndinni. Hiti 13 til 22 stig, hlýjast fyrir norðan.
Á þriðjudag og miðvikudag:
Austlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og víða bjartviðri, en sums staðar þokusúld við sjávarsíðuna. Áfram hlýtt í veðri.
Á fimmtudag:
Hæg norðlæg eða breytileg átt, bjart með köflum og stöku skúrir. Hiti 10 til 18 stig, svalast með norðurströndinni.
Á föstudag og laugardag:
Útlit fyrir hæga breytilega átt og stöku skúri, einkum SV-lands. Kólnar heldur.