Þetta kemur fram í daglegri tilkynningu frá farsóttanefnd spítalans. Spítalinn er hættur að gefa upp hvort þeir sem leggjast inn á spítalann séu bólusettir eða ekki en vitað er að þeir sem liggja á gjörgæslu eru báðir óbólusettir.
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans og formaður farsóttanefndar, sagði í samtali við Vísi í gær að fólk sem legðist inn á spítala með Covid væri yfirleitt með frávik í heilsufari vegna Covid og samverkandi sjúkdóma.
„Þetta eru oftast til dæmis nýrnabilun eða óráð eða eitthvað þess háttar,“ sagði hann.

Hann sagði að um tveir af hverjum þremur sem smitast í þessari bylgju séu 40 ára og yngri. Flestir þeirra hafi aðeins fengið eina sprautu af bóluefni Jansen, sem virðist veita minni vörn en tveir skammtar af öðrum efnum.
Því ríður á að bólusetja þann hóp með skammti tvö eins og er fyrirhugað að gera strax í ágúst.
Meira um vökvatengd vandamál með delta
Már segir greinilegan mun á veikindum þeirra sem eru bólusettir og hinna sem eru það ekki:
„Þeir sem eru fullbólusettir hafa mildari einkenni og alvarleg veikindi eru fátíðari. Hins vegar er það þannig að það sem hefur lagt fólk inn á spítalann eru yfirleitt frávik í heilsufari vegna Covid og samverkandi sjúkdóma. Þá eru þetta eins og ég segi einhver einkenni, nýrnabilun kannski eða óráð.“
Hann segir að með delta-afbrigðinu hafi komið fram mun fleiri tilvik þar sem fólk glímir við vökvatengd vandamál í veikindunum:
„ Fólk hefur verið með ógleði og niðurgang og svo eru það þeir sem eru með hita að þá verður talsvert vökvatap í líkamanum,“ segir Már.