Staðreyndin er þó sú að ef þú sefur minna en sjö til níu klukkustundir á nóttu, hefur það alltaf áhrif á frammistöðuna þína í vinnunni.
Það er ekki þar með sagt að þú standir þig ekki vel í vinnunni. Þvert á móti eru allar líkur á að þú gerir það.
Ef þú svæfir hins vegar sjö til níu klukkustundir á hverri nóttu tæki það þig ekki langan tíma að upplifa muninn á því hversu ótrúlega vel þú stendur þig í öllu þegar að svefninn er nægur.
Það verður hreinlega allt auðveldara.
Einbeitingin okkar er betri.
Við afköstum meira.
Við erum betri í samskiptum.
Við erum jákvæðari og bjartsýnni. Sem aftur gerir okkur lausnarmiðaðari og hugmyndaríkari.
Streitan er minni og við eigum auðveldara með álag.
Þú finnur ekki fyrir syfju yfir daginn en margir kannast við þá tilfinningu til dæmis uppúr hádegi, síðdegis eða yfir kvöldfréttunum.
Að upplifa syfjutilfinningu er vísbending um að þú sért ekki að sofa nóg.
Það góða við að sofa nægilega mikið er hversu vel okkur líður alla daga.
Dagsformið er hreinlega betra og það á við bæði í vinnu og utan vinnu.
Að afkasta meiru á því líka við um frístundirnar og einkalífið. Þetta gerist nánast eins og ósjálfrátt.
Í könnun sem gerð var í Bandaríkjunum kom í ljós að um 38% starfsfólks sefur minna að meðaltali en mælt er með.
Þá sýndu niðurstöður að um þriðjungur sagðist aðeins sofa sex klukkustundir eða minna á nóttu.
Of lítill svefn starfsfólks hefur efnahagsleg áhrif og það veruleg.
Því þegar hver og einn starfsmaður afkastar aðeins minna en ella væri, safnast tapið saman í háar upphæðir og kostnð, hvort heldur er í einkageiranum eða hjá hinu opinbera.
Til dæmis að yfirvinnutímar verða óþarflega margir, vegna þess að of lítill svefn gerir okkur ekki kleift að halda einbeitingu og hægir því á afköstum okkar. Við erum líka gjarnari á að gera mistök, þótt þau séu bara lítil og saklaus.
Já, það er hreinlega dýrt fyrir samfélagið að við sofum of lítið og dýrkeypt fyrir okkur sjálf með tilliti til andlegrar og líkamlegrar heilsu.
Hjá sumum er of lítill svefn vítahringur sem tengist vinnunni. Streitan og álagið í vinnunni er þá svo mikið að fyrir vikið sefur viðkomandi minna og verr.
Ef þú kannast við að finna stundum fyrir syfju í vinnunni eða strax að loknum vinnudegi, mælum við með því að þú skoðir þrjú einföld atriði:
1. Áhrifavaldar
Oft er það sjónvarpsgláp og samfélagsmiðlar sem hafa áhrif á það hvenær við förum að sofa. Gott er að byrja á því að skoða hverjir eru helstu áhrifavaldarnir hjá okkur og taka ákvarðanir um næstu skref út frá því.
Streita gæti til dæmis líka verið áhrifavaldur og eins vaktavinna.
2. Þín eigin svefnáætlun
Í vinnunni erum við vön því að vinna samkvæmt áætlunum og fyrirfram ákveðnu markmiði.
Gott er að ákveða það sama fyrir svefninn þinn.
Að búa til áætlun um það hvernig við viljum að svefnrútínan okkar sé getur hjálpað.
Í þessari áætlun ákveðum við til dæmis hvenær við ætlum að standa upp frá sjónvarpinu (eða hætta á samfélagsmiðlunum) til þess að fara að sofa.
3. Að fá ráðgjöf
Mikilvægi svefns er svo þekkt staðreynd í dag að enn auðveldara er en áður að leita sér aðstoðar.
Bæði er hægt að leita til sérfræðinga sem starfa sérstaklega við svefnráðgjöf en eins að ræða við lækninn.
Þá má finna heilmikinn fróðleik á internetinu um hvernig við getum stuðlað að betri svefn.