Útbeireiðsla kórónuveirunnar hefur verið í veldisvexti hér á landi undanfarnar tvær vikur og met slegið í fjölda smitaðra undanfarna tvo daga. Enn sem komið er hefur hærra hlutfall óbólusettra smitast en fólk úr báðum hópum hefur verið lagt inn á sjúkrahús þó aðeins einn óbólusettur á gjörgæsludeild og er hann undir sextíu ára aldri.

Inga Sæland formaður Flokks fólksins er þessa stundina að senda öllum þingmönnum bréf með áskorun um að þeir taki undir með henni að Alþingi verði nú þegar kallað saman vegna stöðunnar.
„Ef einhvern tíma hefur verið þörf á að blása kjark í þjóðina og axla ábyrgð sem kjörinn fulltrúi er það akkúrat nú í þessum fordæmalausa heimsfaraldri sem er í veldisvexti hér innanlands. Alvarleikinn er þetta gríðarlega álag á starfsmenn Landspítalans sem er í rauninni búinn að vera á hættustigi síðan 23. júlí síðast liðinn. Þannig að ég tel ástandið einfaldlega lífshættulegt,“ segir Inga.
Það verði því að gera eitthvað róttækt fyrir Landspítalann því starfsfólk sé undir gríðarlegu álagi og ástandið komi niður á þjónustu við aðra sjúklinga en þá sem væru veikir af covid. En hluti erfiðrar stöðu spítalans er mönnunarvandi.
Heilbrigðisstarfsfólk verður kannski ekki tínt upp af götunni?
„Það er bara akkúrat það sem við verðum að fara að reyna að gera. Það er bara svoleiðis. Við verðum að sækja fólkið og vera skilvirkari í því. Borga almennilega fyrir það í krónum talið ef það er það sem stendur í veginum. Við verðum einfaldlega að tryggja heilbrigðiskerfið okkar. Við erum ekki farin að sjá fyrir endann og það er talað um að engum hátíndi hafi verið náð hvað það varðar. Smitaðir hér á annað hundrað dag eftir dag. Þannig að ástandið er þannig finnst mér að ég gæti engan veginn skilið hvernig hægt væri að réttlæta að Alþingi kæmi ekki saman á þessari stundu,“ segir Inga Sæland.