Skoðun

Iðnmenntun á Íslandi – Raunverulegur vilji eða tálsýn í aðdraganda kosninga?

Friðþjófur Helgi Karlsson skrifar

Það er ljóst að fjármagn til að mæta þeim áhuga sem er til staðar varðandi iðnám er langt frá því að vera nógu mikið. Starfsfólk í menntageiranum, félög iðngreina og áhugafólk um bætt iðnám, svo einhverjir hópar séu nefndir, hafa reynt að efla áhuga fólks á iðnámi í áratugi. Ég vona svo sannarlega að sú barátta sé nú loksins að bera árangur. Baráttan sem hefur verið hörð hefur gengið út á það að auka veg og virðingu iðnáms í samfélagi okkar. Það er barátta sem ég hef sjálfur tekið þátt í yfir 20 ár.

Viljayfirlýsing undirrituð. Er það nóg?

Á sama tíma og ég gleðst mjög yfir að undirrituð hefur verið viljayfirlýsing um að framtíðarhúsnæði Tækniskólans, með öllum þeim búnaði sem þarf til að kenna iðngreinar í nútímanum, muni rísa á Suðurhöfninni í Hafnarfirði þá hef ég áhyggjur af úthlutun fjármagns ríkisins til reksturs skólastarfsins. Svo raunverulega sé hægt að mæta þeim áhuga sem er fyrir iðnámi hjá fólki á öllum aldri. Og þar liggur mikill vandi.

Fólk á öllum aldri á að geta stundað iðnám

Fólk á öllum aldri sem áhuga hefur á að sækja iðnám í dag, á í erfiðleikum með að fá inni í náminu vegna þess að fjármagn til kennslunnar nægir rétt með naumindum til að taka inn nemendur sem eru að koma beint úr grunnskóla. Það er afleit staða og engum til sóma. Við þurfum að gefa fólki á öllum aldri tækifæri til að stunda iðnám og við getum ekki látið þann áhuga sem nú er á iðnmenntun ganga okkur úr greipum af því að fjármagn er af skornum skammti til kennslunnar.

Kosningalykt af málinu 

Það er kosningalykt af umgjörð þessarar undirritunar en ég vona svo sannarlega að þarna búi meira að baki í þetta sinn. Að það sé raunverulegur vilji til að framkvæma svo efla megi iðnmenntun. Að nægilegu fjármagni verði úthlutað til að mæta þeim áhuga sem er á iðnámi um þessar mundir. Við í Samfylkingunni munum allavega halda áfram að beita okkur fyrir því að raunverulegar umbætur eigi sér stað í iðnámi á Íslandi og fólk á öllum aldri geti sótt iðnám, hafi það áhuga á því. Það er samfélaginu öllu til heilla.

Höfundur er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×