Platan inniheldur meðal annars lagið Ást við fyrstu Seen sem hljómsveitin gaf út síðasta haust ásamt tónlistarmanninum Króla sem vart þarf að kynna.
Á plötunni er einnig að finna lagið Betri án þín sem kom út í vor og hefur notið mikilla vinsælda.
Söngkonan Kristín Sesselja syngur með hljómsveitinni í laginu Með þér. Kristín hefur getið sér gott orð sem söngkona og gaf sjálf út sína fyrstu plötu á síðasta ári.
Önnur lög á plötunni eru Skrifað í skýin, sem kom út síðasta haust, og lagið Snúa við.
Platan er öll á íslensku. Birgir Steinn greindi frá því í viðtali við Vísi fyrir ári síðan að það hitti hann beint í hjartastað þegar hann heyri sungið á íslensku og því semji hann sjálfur á móðurmálinu.
Tvíeykið hóf sitt samstarf fyrir tveimur árum síðan og voru lögin Klukkan tifar og Dreyma, sem þeir sendu inn í Söngvakeppni sjónvarpsins, þeirra frumraun.
Hér má hlusta á plötuna Sögur af okkur í heild sinni.