Sport

Skömmuð fyrir að sýna of mikið hold

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Olivia Breen fékk skammir í hattinn fyrir klæðaburð sinn.
Olivia Breen fékk skammir í hattinn fyrir klæðaburð sinn. getty/Ashley Allen

Dómari á enska meistaramóti fatlaðra fetti fingur út í klæðaburð heimsmeistarans Oliviu Breen um helgina. Henni þótti stuttbuxur Breens sýna full mikið hold og fór fram á að hún myndi klæðast meira viðeigandi klæðnaði.

„Ég varð mjög reið og þetta var rangt,“ sagði hin 24 ára Breen ósátt í samtali við BBC. 

„Þeir geta ekki sagt mér hverju ég má og má ekki klæðast. Þetta eru eins og háar bikiníbuxur sem ég hef klæðst í níu ár og það hefur aldrei verið vandamál. Við viljum keppa í eins léttum klæðnaði og mögulegt er. Við eigum að geta klæðst því sem við viljum.“

Hún birti mynd af bikiníbuxunum umdeildu á Instagram í gær. Þar þakkaði hún fyrir öll skilaboðin sem henni hafi borist undanfarna daga.

Að sögn Breens kom dómarinn að máli við hana eftir keppni í langstökki og setti út á klæðnað hennar.

„Hún sagði að klæðnaður minn væri full afhjúpandi og ég ætti að íhuga að kaupa mér stuttbuxur,“ sagði Breen. „Ég var orðlaus og hélt fyrst að hún væri að grínast.“

Breen sagði ennfremur að karlar í íþróttum myndi aldrei fá viðlíka athugasemdir og gagnrýni fyrir klæðaburð.

Breen hefur tvisvar sinnum orðið heimsmeistari og þá vann hún til bronsverðlauna á ólympíumóti fatlaðra í London 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×