Í minnisblaði Þórólfs, sem birt var á vef Stjórnarráðsins, segir að markmið tillögunnar sé að lágmarka áhættu á smiti innanlands frá Íslendingum en flest smitin sem greinast hér á landi um þessar mundir eru rakin til Íslendinga sem eru nýkomnir til landsins.
Þórólfur tók þó fram að ef ekki væri talið framkvæmanlegt að skikka Íslendinga í sýnatöku yrðu þessir einstaklingar hvattir til að fara í sýnatöku innanlands eins fljótt og auðið er eftir heimkomu.
Eftir ríkisstjórnarfund í dag tilkynnti Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, að ríkisstjórnin hefði ekki farið eftir tillögu Þórólfs. Það hefði þó verið ákveðið að biðja Íslendinga um að fara í sýnatöku.
Einnig tilkynnti Katrín að allir sem koma til landsins erlendis frá muni þurfa að sýna neikvætt PCR-próf eða hraðpróf við landamærin.
Sjá einnig: Öllum gert að sýna neikvætt próf á landamærunum
Þeir sem geti það ekki verði gert að fara í sýnatöku við komu. Fimm daga sóttkví og aðra sýnatöku að henni lokinni. Daglegur fjöldi þeirra sem gangast þetta ferli er um 200 manns.
Í tillögum Þórólfs segir að það fyrirkomulag sé viðhaft í mörgum löndum beggja megin við Atlantshafið.