Í gær greindi Vísir frá því að hin 25 ára gamla Glódís Perla væri mögulega á leið til Bayern en þáverandi lið hennar Rosengård hafði staðfest að hún væri á förum frá liðinu. Nú hefur Bayern staðfest komu Glódísar Perlu.
Glódís Perla verður annar Íslendingurinn í herbúðum Þýskalandsmeistaranna en Karólína Lea Vilhjálmsdóttir samdi við félagið í janúar á þessu ári.

Bayern hafði naumlega betur gegn Wolfsburg í baráttunni um þýska meistaratitilinn á síðustu leiktíð.
Liðið endaði með 61 stig en fyrrum lið Söru Bjarkar Gunnarsdóttur landsliðsfyrirliða endaði með 59 stig.
Bayern fékk aðeins á sig níu mörk í 22 leikjum og ljóst að Glódís Perla á að gera frábæra vörn enn betri.
Bayern beið lægri hlut gegn Wolfsburg í undanúrslitum bikarkeppninnar og þá datt liðið út í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu gegn Chelsea.
Herzlich willkommen in München, Glódís!
— MEISTERINNEN (@FCBfrauen) July 9, 2021
Der @FCBayern verpflichtet die isländische Nationalspielerin Glódís #Viggósdóttir vom FC Rosengård.
Alle Infos https://t.co/rDptEYKoe2#MiaSanMia pic.twitter.com/cshYoMhcRV
Glódís Perla er 26 ára og á að baki 93 landsleiki þar sem hún hefur skorað sex mörk. Hún lék með HK/Víking hér á landi ásamt því að verða Íslandsmeistari með Stjörnunni árin 2013 og 2014 áður en hún hélt til Svíþjóðar ári síðar.
Þar lék hún með Eskilstuna áður en hún samdi við Rosengård árið 2017. Hún hefur nú tekið enn eitt skrefið upp á við á sínum ferli og er komin í eitt stærsta lið Evrópu.
Glódís er spennt fyrir næsta kafla.
Þá þakkaði Glódís fólkinu hjá Rosengård og í Malmö kærlega fyrir undanfarin fjögur ár. Malmö sé orðið hennar annað heimili.