Samkvæmt dönskum fjölmiðlum er mikið ósætti með Peter Hyballa, nýráðinn þjálfara Esbjerg sem leikur í dönsku B-deildinni í knattspyrnu. Aðferðir hans þykja fremur harkalegar og leikmenn liðsins eru vægast sagt ósáttir.
Miðlarnir B.T. og Bold greindu frá fyrr í dag að leikmenn liðsins séu komnir með upp í kok af aðferðum hins 45 ára gamla Þjóðverja. Þann 31. maí skrifaði hann undir samning til 2023 en eftir aðeins mánuð hefur hann fengið nær allan leikmannahópinn upp á móti sér.
Gamaldags þjálfunaraðferðir hans hafa ekki vakið mikla lukku en hann ku niðurlægja leikmenn reglulega. „Þú ert með stærri brjóst en konan þín,“ á Hyballa að hafa sagt oftar en ekki við þá leikmenn sem honum finnst ekki vera í nægilega góðu líkamlegu formi.
„Hver í andskotanum heldur þú að þú sért. Gerðu 20 armbeygjur,“ hreytir hann svo út úr sér ef menn svara fyrir sig.
Leikmannasamtök Danmerkur eru komin í málið og funduðu þau í dag. Ekki er komin niðurstaða í málið. Danska B-deildin fer af stað þann 25. júlí og ljóst að Esbjerg þarf að greiða úr þessari flækju sem fyrst ef þetta á ekki að hafa áhrif á komandi tímabil.
Miðvörðurinn Ísak Óli Ólafsson samdi nýverið við félagið og þá er framherjinn Andri Rúnar Bjarnason einnig á mála hjá Esbjerg.