Sterling hefur verið allt í öllu hjá enska liðinu á mótinu. Hann skoraði bæði mörk liðsins í riðlakeppninni, í 1-0 sigrunum á Króatíu og Tékklandi. Í 16-liða úrslitum skoraði hann fyrra markið í 2-0 sigri á Þýskalandi, í 8-liða úrslitum lagði hann upp fyrsta mark Englands í þægilegum 4-0 sigri á Úkraínu.
Í gærkvöld var svo dramatískur undanúrslitaleikur þar sem England vann 2-1 sigur á Danmörku í framlengdum leik. Simon Kjær varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og jafna þar með metin. Ef Kjær hefði ekki slysast til að setja boltann í eigið net þá hefði Sterling rennt honum yfir línuna þar sem hann var í frábærri stöðu á bakvið Kjær.
Sterling fiskaði svo vítið sem skilaði á endanum sigurmarkinu í framlengingu og tryggði sæti Englands í úrslitum. Þá var Sterling magnaður í leiknum gegn Dönum og virtist eiga nóg eftir á tanknum þó 120 mínútur væru komnar á klukkuna.
„Ég sagði eftir leikina í riðlakeppninni að Raheem Sterling hefði verið langbesti leikmaður Englands. Það var mikil umræða fyrir mót um að staðan hans væri laus. Eitthvað sem ég skil ekki þar sem Sterling hefur verið frábær fyrir Gareth Southgate síðan á HM fyrir þremur árum,“ sagði Carragher um frammistöðu Sterling.
„Þegar Harry Kane kemur niður úr fremstu línu til að fá boltann þá þarftu að hafa leikmenn sem taka hlaup inn fyrir vörn mótherjanna.“
„Fyrir mót hefði ég sagt að nafnarnir Harry Maguire og Kane væru fyrstu tvö nöfnin á blaðið hjá Southgate. Eftir frammistöðuna á mótinu þá hlýtur Sterling að vera kominn í sama hóp. Venjulega kemur leikmaður mótsins frá liðinu sem vinnur mótið en það er ekki alltaf þannig. Það koma nokkrir til greina en eins og staðan er í dag er Sterling líklegastur,“ sagði Carragher að lokum.

EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 er einnig hægt að kaupa stakt á lækkuðu verði frá og með 24. júní á kr. 3.990.