Erlent

Kampa­vín verður að ó­merki­legu freyði­víni í Rúss­landi

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Moët & Chandon er best selda kampavín í heimi. Ætli það verði best selda freyðivín í Rússlandi eftir breytinguna eða ætli Rússar séu sjúkir í Shampanskoye?
Moët & Chandon er best selda kampavín í heimi. Ætli það verði best selda freyðivín í Rússlandi eftir breytinguna eða ætli Rússar séu sjúkir í Shampanskoye? getty/Alberto E. Rodriguez

Franskir freyði­víns­fram­leið­endur úr héraðinu Champagne eru æfir eftir að ný lög­gjöf var inn­leidd í Rúss­landi, sem má kalla á­kveðna tíma­móta­lög­gjöf í vín­heiminum. Þar er kveðið á um að rúss­neska freyði­vínið Shampanskoye (sem er rúss­neska orðið yfir kampa­vín) megi eitt bera heitið, sem hefur hingað til að­eins til­heyrt vín­fram­leið­endum Champagne-héraðsins.

Á sama tíma missa franskar reglu­gerðir um vín­merkingar, sem hafa hingað til verið virtar á al­þjóða­vett­vangi, allt gildi sitt í Rúss­landi. Öll inn­flutt freyði­vín í landinu verða fram­vegis að vera merkt með miða á bak­hlið sinni sem á stendur „freyði­vín“.

Freyði­víns­fram­leið­endur í Champagne hafa hingað til einir mátt merkja vín sín sem kampa­vín. Stimpillinn er talinn sýna fram á á­kveðin gæði, því við fram­leiðslu vínsins er stuðst við alda­gamla hefð í héraðinu. Eins og segir á heima­síðu sér­stakrar nefndar vín­héraðsins: „Kampa­vín kemur að­eins frá Champagne“.

Freyðivínshillan í Lenta, stórverslun í Sankti Pétursborg.getty/Alexander Demianchuk

Sovét-kampavín alþýðunnar

Hið rúss­neska Shampanskoye er ó­dýrt og vin­sælt freyði­vín í Rúss­landi. Það er í raun eftir­gerð drykkjar sem var fram­leiddur í stjórnar­tíð Stalíns á Sovéttímanum og var kallaður Sovét-kampa­vín.

Sovét-kampa­vín átti að koma í staðinn fyrir hefðar­drykkinn kampa­vín og færa þennan munað í hendur al­mennings.

Hættu við að hætta við útflutning

Málið hefur farið öfugt ofan í fram­leið­endur kampa­víns í Frakk­landi. Þeir segja Champagne-héraðið hafa verið niður­lægt með lög­gjöfinni og krefjast þess að frönsk og evrópsk yfir­völd grípi til að­gerða til að fá þessu breytt til baka.

Fram­leiðandinn vin­sæli Moët Hennes­sy hótaði um daginn að hætta út­flutningi sínum til Rúss­lands. Fram­leiðandinn fram­leiðir nafn­þekkt kampa­vín á borð við Veu­ve Clicquot, Dom Pé­rignon, Ru­inart, Mercier og Krug.

Dom Pérignon er óumdeilt stöðutákn. Það er meðal þeirra kampavína sem rapparar hafa gjarnan gert hátt undir höfði. getty

Síðar bakkaði fram­leiðandinn með yfir­lýsingar sínar og til­kynnti að hann myndi halda sendingum sínum til Rúss­lands ó­breyttum, enda hlýtur markaðurinn þar að vera ansi stór:

„Moët Hennes­sy hefur alltaf virt lög hjá þeim ríkið sem fyrir­tækið er með starf­semi í og mun hefja sendingar aftur um leið og hægt verður að gera breytingar á merkingum vínanna,“ segir í til­kynningunni.


Tengdar fréttir

Vilja hætta að merkja vín sín Rioja

Yfir fimm­tíu bask­neskir vín­fram­leið­endur vilja nú ekki lengur að vín þeirra séu merkt sem Rioja-vín. Vín merkt svæðinu Rioja eru ó­um­deilan­lega þau vin­sælustu sem koma frá Spáni en bask­nesku fram­leið­endurnir vilja nýja sér­bask­neska vín­merkingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×