Búðin heitir Vörin og býður upp á nikótínpúða af öllum stærðum og gerðum, sem njóta verulegra vinsælda á meðal nikótínfíkla nýrra og gamalla.
Með þessu er Herra Hnetusmjör að stökkva á vagn sem hefur reynst öðrum ærið gjöfull hingað til, eins og árangur keðja eins og Svens hafa sýnt. Sú verslun rekur nú sjö útibú eftir að hafa hafið starfsemi í apríl 2020.
Á sama tíma hefur verið sagt frá því að heildsalinn sem flytur inn Loop og Lyft hafi hagnast um 65 milljónir árið 2020, sem var tífaldur hagnaður á við árið á undan.
Kaupir fimm og færð sex
Herra Hnetusmjör er sigri hrósandi á hringrás sinni á Instagram í dag: „Við erum með tilboð á Loop sem er þannig að þú kaupir fimm og færð sex, þú kaupir 10 og færð 12.“
Dollurnar kosti allt frá 449 krónum í Vörinni. Það er allt til alls, og smakkbar, þannig að þeir sem vilja prófa brögð áður en fjárfest er í púðunum geta nælt sér í einn prufupoka með snyrtilegri töng.
Herra Hnetusmjör er einn allra vinsælasti rappari landsins, með um 22.800 fylgjendur á Instagram.