„Þetta eru svona blöðrur sem myndast, ofboðslegur kláði, svo klórar maður síg til blóðs í svefni og þá lekur einhver viðbjóðsvökvi úr þessu. Ég bólgna mikið við hvert bit. Vinstri úlnliðurinn á mér er tvöfaldur. Þar eru fjögur bit.“

Álfheiði virðist sem hún sé í alveg sérstöku upphaldi hjá þessum ófögnuði sem lúsmýið er. Henni var sagt í apótekinu á Selfossi að lúsmýið hafi tekið til óspilltra málanna í síðustu viku. Og það er í ham. Í Grímsnesinu og á Laugarvatni er ástandið skelfilegt af völdum þessarar mjög svo ógeðfelldu smáu flugu.
„Histamíntafla við kláðanum, afterbite til að bera á yfir daginn og svo svona vægt sterakrem fyrir nóttina,“ segir Álfheiður spurð hvað sé til ráða. Og svo eru til ýmis húsráð.
„Það er hægt að nota reykelsi og lavendurolíu og ýmislegt innanhúss en utanhúss er ekkert hægt að gera og allir á fullu í garðverkum. Hugsanlega hægt að maka sig í lavenderolíu en þá sólbrynni maður líklega illilega.“