Með breytingunum er lögð aukin áhersla á mikilvægi þess að „mæta beri hverju og einu barni út frá menningarbakgrunni þeirra og að námsumhverfi skóla henti öllum börnum sem þar stunda leik og nám“, eins og segir í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Tillögur að breytingunum voru kynntar í samráðsgáttinni í febrúar og verður uppfærð gerð aðalnámskrár leikskóla birt á næstu dögum.
Þær eru gerðar vegna fjölgunar fjöltyngdra barna í leikskólum landsins.
Styðja við öll tungumál
Framvegis verða leikskólarnir að leggja grunn að íslenskunámi barna og veita þeim ríkuleg tækifæri til að efla tungumálafærni sína í daglegu starfi og leik. Þá er sett inn ákvæði í námskrána um að „bera skuli virðingu fyrir fjölbreyttum tungumálum og leita leiða til að styðja við móðurmál barna og virkt fjöltyngi í daglegu starfi“.
Einnig er áréttuð nauðsyn þess að gagnkvæmur skilningur ríki milli foreldra og starfsfólks leikskóla um samspil náms og vellíðunar barna.
Breytingarnar voru kynntar helstu hagsmunaaðilum á rafrænum kynningarfundi ráðuneytisins síðasta þriðjudag. Hann sóttu meðal annars leikskólakennarar, leikskólastjórar, fræðslustjórar sveitarfélaga og foreldrar ásamt fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka Móðurmál og háskólanna.