Auglýsingin kom út í gær í tilefni kvenréttindadagsins. Í auglýsingunni má sjá áhrifamikla einstaklinga úr samfélaginu í endurgerð af þjóðþekkta málverkinu „Þjóðfundurinn“ eftir Gunnlaug Blöndal.
Á þjóðfundinum stóðu á fimmta tug karlmanna á fætur og sögðu „Vér mótmælum allir“. Auglýsingastofan Brandenburg gaf auglýsinguna út og vakti hún talsverða athygli í gær.
„Við skorum á okkur sjálf og ykkur öll að fjölga konum í áhrifastöðum og tryggja sömuleiðis jafnrétti og fjölbreytileika í ákvarðanatöku á öllum sviðum samfélagsins. Íslandi til heilla um alla framtíð,“
segir í auglýsingunni.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair er einn af þeim sem kemur fram í auglýsingunni. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og aðgerðasinni, gagnrýnir aðkomu hans á Facebook síðu sinni.
„Ömurleg aðför að kvennastétt“
Sólveig segir ekki vera nema rétt ár síðan Bogi Nils leiddi „eina ömurlegustu aðför að kvennastétt sem sést hefur í íslenskri vinnumarkaðs-pólitík, þegar að Icelandair og SA „union-böstuðu“ Flugfreyjufélag Íslands í miðri kjaradeilu“.
„Eins og þið munið kannski var planið að fá karlastéttina flugmenn til að ganga í störf flugfreyja. Ég hefði sagt „Þetta mun aldrei gleymast“ en mig langar ekki að segja ósatt,“ segir Sólveig Anna.
„Á Íslandi er ár afskaplega langur tími; á endanum skiptir mestu máli að sýna að „við erum öll í þessu saman“, sponsuð af Íslandsbanka og Landsvirkjun, öll í því saman að mótmæla einhverju, svo lengi sem það er bara nægilega yfirborðskennt og óljóst.“
Þá bendir Sólveig einnig á að hvorki henni né Agnieszku Ewu, varaformanni Eflingar, hafi verið boðið að vera með í auglýsingunni, þrátt fyrir að hafa skipulagt söguleg kvennaverkföll láglaunakvenna með góðum árangri.