Handbolti

Viktor Gísli og félagar nældu í bronsið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viktor Gísli og félagar í GOG eru komnir í úrslit.
Viktor Gísli og félagar í GOG eru komnir í úrslit. GOG

Danska handknattleiksliðið GOG nældi sér í dag í bronsið í dönsku úrvalsdeildinni. Liðið vann fjögurra marka sigur á Holstebro í rimmunni um bronsið, lokatölur 33-29.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði mark GOG að venju. Þá leikur Óðinn Þór Ríkharðsson með Holstebro.

Leikur dagsins var oddaleikur en staðan í einvíginu var 1-1 eftir tvo leiki. Í dag var hins vegar aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda og hvort liðið myndi hljóta bronsverðlaunin. 

GOG byrjaði af krafti og leiddi nær allan fyrri hálfleikinn. Í stöðunni 10-9 skoruðu þeir fjögur mörk í röð og voru allt í einu komnir fimm mörkum yfir. Holstebro minnkaði muninn niður í þrjú mörk áður en fyrri hálfleik lauk, staðan þá 17-14.

Þeim tókst að minnka muninn niður í tvö mörk í síðari hálfleik áður en frábær kafli hjá GOG kom þeim sjö mörkum yfir. Lagði það grunninn að sigrinum fjögurra marka sigri liðsins og skilaði því sigri. Lokatölur í dag 33-29 GOG í vil.

Viktor Gísli varði 12 skot í marki GOG og var með 31 prósent markvörslu. Óðinn Þór komst ekki á blað hjá Holstebro í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×