Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, sagði í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að það hafi ekki verið launungamál að samtökin hafi verið að skoða brotastarfsemi innan Íslensks vinnumarkaðar, þar hafi hún frekar liðist í byggingageiranum og ferðaþjónustu.
„Við vitum til þess til dæmis í hópi leiðsögumanna hefur fólki sem áður var launafólk verið boðið að koma til baka sem verktakar án þess að álag þar sé nóg til að þeir gætu staðið undir sínum skuldbindingum. Það þýðir ekkert annað en kjararýrnun og launalækkun,“ sagði Halla.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segist hafa orðið hissa á því að fólk skuli segja að ástandið innan ferðaþjónustunnar sé skelfilegt og að hún ætli að halda áfram frá þeim stað sem frá var horfið.
„Ég get ekki séð að það hafi verið einhver skelfileg staða í greininni þegar hún skall í lás fyrir rúmu ári síðan,“ sagði Bjarnheiður.

„Ég var líka hissa að sjá fulltrúa ASÍ vara við því sem hugsanlega gæti gerst varðandi brotastarfsemi. Þetta hefur verið áberandi söngur hjá ASÍ síðustu ár, að það sé mikil brotastarfsemi og óvenjulega mikil í ferðaþjónustu.“
Hún segir ASÍ hafa viðurkennt að um sé að ræða aðeins lítið brot fyrirtækja í ferðaþjónustu. Því sé óþarfi að smætta stéttina og segja hana undirlagða brotastarfsemi. Halla segir afstöðu ASÍ ekki byggjast á einhverri tilfinningu heldur ítrekuðum dæmum um brotastarfsemi.
„Kröfur vegna launaþjófnaðar hjá ferðaþjónustunni hlaupa á hundruðum en það er rétt að þetta er ekki fjöldinn heldur hinir fáu og þeir setja svartan blett á ferðaþjónustuna.“ sagði Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ.