Í frumvarpi Fidesz-flokks Viktors Orban forsætisráðherra er lagt til að LGBT-bókmenntir megi ekki sýna börnum yngri en átján ára. Undir það fellur meðal annars námsefni og auglýsingar sem styðja réttindi hinsegin fólks. Ákvæðin eru hluti af frumvarpi um refsingar við barnaníði, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Hjónabönd samkynhneigðra eru ólögleg í Ungverjalandi og samkynhneigðir mega ekki ættleiða þar. Útspil Fidesz-flokksins nú er sagt liður í kosningabaráttu fyrir kosningar í byrjun næsta árs.
Samtök LGBT-fólks í Ungverjalandi hefur hvatt aðgerðasinna til að þrýsta á Joe Biden Bandaríkjaforseta að taka málið upp við Orban í Evrópureisu sinni í næstu viku.
Rússnesk stjórnvöld samþykktu sambærileg lög árið 2013 en yfirlýst markmið þeirra var að banna „samkynhneigðan áróður“ gagnvart fólki yngri en átján ára. Samkvæmt þeim er bannað að hvetja til „samkynhneigðrar hegðunar“ á meðal barna.
Orban og Fidesz-flokkur hans hafa sagst aðhyllast svonefnd „ófrjálslynt lýðræði“. Í forsætisráðherratíð Orban frá 2010 hefur landið hneigst sífellt lengra í átt að valdboði stjórnvalda. Þrengt hefur verið að óháðum fjölmiðlum þannig að þeir eru nú flestir á bandi Orban auk þess sem dómstólar landsins eru taldir undir hæl framkvæmdavaldsins.