Leikurinn var hnífjafn frá fyrstu mínútu enda um liðin í öðru og þriðja sæti að ræða þó svo að töluverður munur sé á þeim stigalega séð. Heimamenn í Magdeburg voru einu marki yfir í hálfleik, 17-16, og tókst þeim að halda það út en bæði lið skoruðu 17 mörk í síðari hálfleik.
Lokatölur því 34-33 sem þýðir að Kiel er nú stigi á eftir Flensburg þegar fimm umferðir eru eftir af deildinni.
Ómar Ingi skoraði átta mörk í kvöld en enginn leikmaður vallarins skoraði meira. Samherji hans Željko Musa skoraði einnig átta mörk sem og hinn sænski Niclas Ekberg í liði Kiel.
Magdeburg er eftir sigur kvöldsins með 46 stig í 3. sæti deildarinnar, þremur stigum meira en Rhein-Neckar Löwen. Kiel er hins vegar í 2. sæti með 59 stig á meðan Flensburg trónir á toppnum með 60 stig.