Frábær tilþrif útfærsla Helga Laxdal á dýnu vakti mikla athygli. Gerði hann framumferð með tvöföldu heljarstökki og tveimur og hálfri skrúfu og þar með varð hann fyrstur í heiminum til þess að framkvæma og lenda þetta stökk í keppni.
Sjá má þessi mögnuðu tilþrif í myndbandinu hér að neðan.
Valgerður Sigfinnsdóttir er í fantaformi og sýndi sitt þrefalda heljarstökk með hálfri skrúfu í annað sinn á tveimur vikum en hún var fyrst kvenna til að framkvæma þetta stökk á Íslandi á Bikarmótinu.
Í kvennaflokki var það lið Stjörnunnar sem sigraði með 59.150 stig. Stjarnan var yfirburða lið í ár og vann einnig Íslandsmeistaratitla á öllum áhöldum. Í öðru sæti var lið Gerplu með 56.800 stig, í því þriðja var lið Stjörnunnar 2 með 48.450 stig.

Í karlaflokki var það lið Stjörnunnar 1 sem varð hlutskarpast með 54.700 stig en liðið sýndi frábærar æfingar og má líkja trampólínæfingum liðsins við flugeldasýningu.
Lið Stjörnunnar 1 sigraði einnig Íslandsmeistaratitil á öllum áhöldum líkt og kvennalið Stjörnunnar. Lið Stjörnunnar 2 var í öðru sæti með 44.300 stig.

Einnig var keppt í 1. flokki kvenna. Þar var það lið Gerplu sem stóð uppi sem sigurvegari með 50.350 stig. Liðið vann einnig sigur í gólfæfingum með 20.600 stig og á trampólíni með 14.700 stig.
Í öðru sæti var lið Stjörnunnar með 48.700 stig, en lið Stjörnunnar sigraði í æfingum á dýnu með 15.200 stig. Í þriðja sæti voru núverandi bikarmeistarar Selfoss, en þær fengu alls 45.550 stig.
