Ferðagjafir ársins 2020 runnu út í gær en í dag ættu landsmenn að fá nýja ferðagjöf, að verðmæti 5.000 krónur, sem gildir út september 2021.
Samkvæmt uppgjöri Mælaborðs ferðaþjónustunnar nam andvirði sóttra ferðagjafa 1,1 milljarði króna en um milljarður var nýttur. Sóttar ferðagjafir voru 226.248 talsins, 206.853 voru nýttar en aðeins 179.318 fullnýttar.
Ónotaðar ferðagjafir voru 19.395.
Vísir greindi frá því í gær að ferðagjafahafar hefðu helst verslað við FlyOver Iceland, N1, Olíuverzlun Íslands, KFC og Íslandshótel.
Í gær var þó áberandi að fólk nýtti ferðagjöfina til að kaupa mat á veitingastöðum og efstu fyrirtækin á lista fengu 40 milljónir af þeim 80 milljónum sem notaðar voru í gær.
- N1 - 13,8 milljónir
- Olíverzlun Íslands - 7,8 milljónir
- Hlöllabátar - 4,5 milljónir
- KFC - 4,2 milljónir
- FlyOver Iceland - 3 milljónir
- Pizza Pizza (Domino's) - 2,5 milljónir
- Hraðlestin - 1,1 milljón
- Flugleiðahótel - 1 milljón
- K6 veitingar - 841 þúsund
- Nings - 765 þúsund
K6 rekur staðina RUB23, Bautann, Pizzasmiðjuna og Sushi Corner.
Þess ber að geta að um er að ræða einstaka kennitölur, þannig að keðjur sem reka staði á ólíkum kennitölum kunna að hafa verið vinsælli en listinn bendir til.