Þá hafði hún verið spurð út í viðbrögð forsvarsmanna Samherja við umfjöllun um fyrirtækið og málefni þess í Namibíu í fjölmiðlum.
Bréfið var sent þann 27. apríl af lögmanninum Arnari Þór Stefánssyni og var það degi eftir að Lilja létt ummælin um Samherja falla á þingi. Fór Arnar fram að hún útskýrði nákvæmlega hvað hún hefði átt við.
Spurði hann hvort hún ætti til að mynda við þá ákvörðun stjórnenda Samherja að vísa ummælum starfsmanna Ríkisútvarpsins til stjórnar þess. Hvort hún ætti við umfjöllun Samherja um það að stjórn RÚV hefði sagt Helga Seljan hafa brotið gegn siðareglum Ríkisútvarpsins, eða hvort það hafi verið myndbandsgerð Samherja í kjölfar þess úrskurðar stjórnarinnar.
Sjá einnig: Helgi Seljan segir Sigrúnu Stefánsdóttur bullandi vanhæfa
„Þess er óskað að þér útskýrið af töluverðri nákvæmni ummæli yðar á þingi um þessi efni,“ skrifaði Arnar, samkvæmt frétt Kjarnans, og bað hann um svar innan viku.
Kjarninn fékk bréfið afhent frá ráðuneytinu í dag og hefur miðillinn eftir Lilju að hún hafi ekki svarað bréfinu og er haft eftir henni sjálfri að brýnni mál hefi verið sett í forgang.
Í bréfinu segir Arnar það einnig hafa vakið athygli að Lilja hafi lýst yfir stuðningi við Ríkisútvarpið og stjórnendur þess. Spurði hann hvort siðareglubrot Helga skiptu Lilju engu máli. Hann spurði einnig hvort viðbrögð stjórnenda Ríkisútvarpsins skiptu heldur engu máli. Vísaði hann þar til ummæla Marðar Árnasonar, sem er í stjórn RÚV, í viðtali við Mannlíf þar sem hann sagðist túlka bréf stjórnarinnar til Samherja á þann veg að stjórnin væri að segja: „Fokkið ykkur“.
Sjá einnig: Stjórn RÚV ætlar ekki að bregðast við erindi Samherja
Í gær var birt yfirlýsing á vef Samherja þar sem stóð berum orðum að félagið hefði gengið of langt í viðbrögðum við umfjöllun um það.